Ungverjar spiluðu mun betur í leiknum en oft vantaði þó lítið upp á að Íslendingar næðu að vinna umferðir og skora stig - of oft vantaði þó nógu mikið upp á til að það voru Ungverjar sem skoruðu í staðinn. Evrópumótið er leikið í tveimur deildum, A og B. Tíu bestu lið álfunnar leika í A-flokki en í B-flokki leika samtals 20 lið í karlaflokki, hjá konunum eru 10 lið í A-flokki og níu í B-flokki. Íslenska liðið er í öðrum riðli B-flokksins og miðað við fyrri árangur og úrslit leikja hingað til má ætla að Ungverjar verði í toppbaráttunni í okkar riðli. Þeir hafa unnið þrjá fyrstu leiki sína í riðli B2 eins og Wales. Tvö lið úr hvorum riðli í B-flokknum leika til úrslita eftir að riðlakeppninni er lokið og fara tvö efstu liðin síðan upp í A-flokk að ári. Í hinum riðlinum eru það Rússar og Hollendingar sem hafa farið best af stað.
Næsti leikur Íslendinga er klukkan 20 í kvöld. Andstæðingarnir eru Króatar og ættu okkar menn að eiga mun raunhæfari möguleika gegn þeim en í leiknum í morgun.
Allar upplýsingar um mótið sjálft er að finna á vef mótshaldara í Aberdeen, http://www.ecc2009.co.uk/. Fréttir og frásagnir af okkar mönnum má finna á http://www.curling.is/, http://www.mammothcurling.blogspot.com/ og á samskiptavefnum Facebook.