Í keppnum hér heima kallar liðið sig Mammúta og hafa liðsmenn hampað Íslandsmeistaratitlinum í tvö ár í röð. Efnahagslegar ástæður komu í veg fyrir þátttöku á EM 2008 en með góðum stuðningi fjölmargra fyrirtækja er þátttaka í mótinu nú möguleg. Þetta er í annað sinn sem Íslendingar senda lið á Evrópumótið en einnig hafa lið héðan tekið þátt í HM 50 ára og eldri nokkrum sinnum.
Liðið heldur utan að morgni miðvikudagsins 2. desember en fyrsti leikurinn er gegn liði Slóvaka og hefst hann á hádegi laugardaginn 5. desember. Liðið leikur alls níu leiki á mótinu, tvo á dag frá sunnudeginum 6. desember fram á miðvikudaginn 9. desember. Keppinautar Íslendinga í riðli B2 verða Slóvakar, Ungverjar, Króatar, Belgar, Hvít-Rússar, Austurríkismenn, Walesverjar, Lettar og Írar. Þessar þjóðir eru í á bilinu 17.-34. sæti á heimslistanum en þar er Ísland í 41. sæti. Á Evrópulistanum eru keppinautarnir í sætum 12-29 en Ísland í 32. sæti.
Alls taka 30 þjóðir þátt í karlaflokki, tíu sterkustu þjóðirnar eru í A-flokki en Ísland á sæti í B-flokki þar sem 20 þjóðum er skipt í tvo riðla og leika tvö efstu liðin úr hvorum riðli til úrslita í B-flokki og um réttinn til að færast upp í A-flokk og réttinn til að leika um laus sæti á Heimsmeistaramótinu. Breyting verður gerð á Evrópumótinu á næsta ári og munu sex neðstu liðin í B-flokki nú færast niður í C-flokk.