Innflytjendum gengur vel að fá vinnu á Íslandi

Svo virðist sem erlendu vinnuafli gangi einna best að fá vinnu á Íslandi af öllum Norðurlöndunum. Ástæður þess eru bæði að hér er mikil eftirspurn eftir vinnuafli, en líka að hlutfallslega eru hér fáir frá Afríku og Asíu, en þetta eru einmitt þeir hópar sem farið hafa halloka á vinnumarkaði í Evrópu. Þetta kom fram í erindi sem Ingi Rúnar Eðvarðsson, prófessor við Háskólann á Akureyri, flutti á Sólborg í gær.

Fyrirlesturinn fjallaði um erlent vinnuafl á norrænum vinnumörkuðum og byggði á norrænu rannsóknarverkefni. Fram kom hjá Inga Rúnari að fjöldi innflytjenda á norrænum vinnumörkuðum hefur aukist á síðari árum. Fleiri koma lengra að en áður, þ.e. frá löndum utan Evrópu. Flestir innflytjendur flytjast til Svíþjóðar - fæstir til Íslands, enda er það afleiðing af því að vinnumarkaðir eru stærri þar sem fjölmennið er meira. Hlutfallsleg mesta aukning erlends vinnuafls er í Finnlandi, á Íslandi og í Noregi. Innflytjendasvæði er mismunandi milli Norðurlandanna.

Innflytjendur á Norðurlöndum koma mjög víða að. Frá Norðurlöndum, Evrópulöndum, Asíu, Ameríku og Afríku. Ísland sker sig úr í þessu sambandi þar sem tiltölulega fáir utan Evrópu koma hingað til lands miðað við önnur Norðurlönd

Engar einfaldar skýringar eru á ástæðum fyrir flutningi fólks á milli landa. Það er blanda af því að fólk leitar að vinnu, hærri launum, betri lífskjörum og að það flytur til svæða þar sem tilteknir innflytjendahópar eru fyrir.

Hér má nálgast glærur úr fyrirlestri Inga Rúnars

Nýjast