Einnig hefur íbúum í Hörgárbyggð fjölgað nokkuð á milli ára, voru 415 í lok síðasta árs en eru nú 429. Í Eyjafjarðarsveit fækkaði íbúum um 10 á milli ára, voru 1.040 í fyrra en þann 1. desember sl. voru þeir 1.030. Í Arnarneshreppi og Grýtubakkahreppi fækkaði um einn íbúa í hvoru sveitarfélagi á milli ára, eru 177 í Arnarneshreppi og 337 í Grýtubakkahreppi. Í Dalvíkurbyggð fjölgaði íbúum um 9 á milli ára, voru 1.951 um síðustu mánaðamót. Hins vegar fækkaði íbúum nokkuð í Fjallabyggð á milli ára, eða um 47. Þann 1. desember sl. voru íbúar í sveitarfélagsins 2.082 að tölu.
Þann 1. desember í fyrra voru íbúar á Norðurlandi eystra alls 29.060 en fækkaði nokkuð á milli ára, voru 28.909 um síðustu mánaðamót. Íbúar með lögheimili á Íslandi voru 317.593 þann 1. desember sl. Ári áður var íbúafjöldi 319.756 og er fækkun milli ára því um 2.163 íbúa eða 0,7%. Mest er fækkunin hlutfallslega á Austurlandi. Þar fækkaði um 431 einstakling, eða 3,3% frá fyrra ári. Fækkun landsmanna stafar einkum af fækkun fólks með erlent ríkisfang en því fækkaði milli ára um 3.099 manns, en íslenskum ríkisborgurum fjölgaði um 936 frá 1. desember 2008, segir í yfirliti Hagstofunnar.