Íbúar við Fossland hljóta umhverfisverðlaun Eyjafjarðarsveitar

Líkt og undanfarin ár veitir umhverfisnefnd Eyjafjarðarsveitar umhverfisverðlaun til þeirra íbúa sveitarinnar sem þykja skara fram úr hvað varðar umgengni og snyrtilegt umhverfi. Viðurkenningarnar hafa ýmist verið ein eða fleiri. Í ár ákvað nefndin að bregða út af venjunni og veita viðurkenninguna til íbúa í götunni Fosslandi og fór afhending verðlaunanna fram í dag.  

Við Fossland standa fjögur hús þar sem nefndinni þótti umgengni og frágangur lóða og umhverfis til mikillar fyrirmyndar. Eigendur húsanna eru:

Randver Karl Karlsson og Guðrún Helga Kristjánsdóttir, Fossland 1

Kristinn G. Kristinsson og Sigríður K. Gunnarsdóttir, Fossland 2

Halldór G. Baldursson og Anna Katrín E. Þórsdóttir, Fossland 3

Jón Trausti Björnsson og Álfhildur Vilhjálmsdóttir, Fossland 5

Undanfarin ár hafa yfirleitt verið veittar viðurkenningar í tveimur flokkum, annars vegar til býlis þar sem stundaður er hefðbundinn landbúnaður og hins vegar til stakra húsa. Í umhverfisnefnd Eyjafjarðarsveitar eiga sæti þau Valgerður Jónsdóttir, Brynhildur Bjarnadóttir og Sigurgeir Hreinsson. Nefndin hvetur aðra íbúa sveitarinnar til að taka íbúa við Fossland sér til fyrirmyndar.

Nýjast