Íbúar kvarta yfir framgöngu byggingaverktaka við Undirhlíð

Á fundi bæjarráðs Akureyrar í morgun var tekið fyrir erindi frá íbúum í Miðholti 2, 4 og 6, Stafholti 1 og Stórholti 11, 14 og 16 þar sem þeir vilja koma á framfæri kvörtun vegna framgöngu byggingaverktaka á byggingareitnum Undirhlíð 1-3. Einnig beina þeir þeirri fyrirspurn til bæjaryfirvalda um hvernig staðið hafi verið að ráðstöfun trjágróðurs sem var á umræddum byggingareit.  

Í erindinu er spurt hvort brotið hafi verið á lögreglusamþykkt Akureyrarbæjar, um mengunarmál og svifryk, um umferðarmál og um trjágróður á lóðinni. Baldvin H. Sigurðrsson og Oddur Helgi Halldórsson sátu hjá við afgreiðslu málsins. Í svari meirihluta bæjarráðs kemur m.a. fram að samkvæmt núgildandi lögreglusamþykkt Akureyrarbæjar er farið fram á að "Ef eitthvað slæðist eða hrynur niður á almannafæri við flutninginn, fermingu eða losun, er stjórnanda flutningstækisins skylt að hreinsa það upp þegar í stað."  Farið var fram á hreinsun við verktakann sem varð við þeirri bón.
Bæjarráð bendir á að samfara byggingarframkvæmdum verði því miður ekki komist hjá óþægindum s.s. vegna svifryks og mengunar frá flutningabílum samfara jarðsvegsskiptum og sé því reynt að haga verklagi þannig að þau gangi hratt og vel fyrir sig. Í umræddu tilviki var farið fram á að samhliða greftri yrði fyllt jafnóðum í grunninn til þess að minnka hættu á jarðsigi og koma í veg fyrir hreyfingu á grunnvatnsstöðunni. Komið hefur í ljós að sig hefur ekki mælst á svæðinu við það að nota þessa aðferðarfræði.
Varðandi umferðarmál segir í svari bæjarráðs að um býsna umfangsmikla framkvæmd sé að ræða og því ekki óðeðlilegt að einhverjar tímabundar tafir hafi orðið á umferð við Undirhlíð vegna jarðvegsskipta meðan á þeim stóð. Samkvæmt samtölum við verktakann var þó reynt að haga akstri þannig að hægt var að fara um Undirhlíðina á meðan á framkvæmdum stóð. Nú er jarðvegsskiptum lokið við húsið nr. 3 og því ekki þörf á útkeyrslu við gatnamót Undirhlíðar og Krossanesbrautar og hefur henni verið lokað en tekið skal fram að um tímabunda heimild var að ræða.
Bæjarráð bendir á að almennt sé lóðum úthlutað í því ástandi sem þær eru hverju sinni, með þeim kostum og göllum sem þeim fylgir fyrir lóðarhafa. Þegar lóðum er úthlutað fylgir þeim oft á tíðum gróður eins og í þessu tilviki.  Samkvæmt upplýsingum framkvæmdadeildar á Akureyrarbær nú þegar mikið af óráðstöfuðum trjám sem þurft hefur að fjarlægja víðs vegar um bæinn og ekki hefur verið plantað aftur í bæjarlandinu. Á umræddri lóð var talsvert af öspum sem ekki var talin ástæða til að flytja á annan stað í bæjarlandinu.

Nýjast