Íbúar krefjast tafarlausra lausna á Hörgárbraut

Á síðustu þremur árum hafa þrjú alvarleg slys verið við gangbrautina á Hörgárbraut þar sem keyrt var…
Á síðustu þremur árum hafa þrjú alvarleg slys verið við gangbrautina á Hörgárbraut þar sem keyrt var á gangandi vegfarendur. Mynd/Þröstur Ernir.

Íbúar í Holta- og Hlíðahverfi á Akureyri hafa fengið nóg af alvarlegum umferðarslysum á Hörgárbraut og vilja að bæjaryfirvöld fari tafarlaust í framkvæmdir til að tryggja öryggi gangandi vegfarenda. Fyrir um tveimur vikum slasaðist 5 ára drengur þegar hann varð fyrir bíl á Hörgárbraut og þykir mildi að hann hafi ekki slasast lífshættulega.

Einar Gauti Helgason hefur búið í hverfinu um árabil en flutti yfir Hörgárbrautina í desember í fyrra. „Mér sýnist á öllu að bæjaryfirvöld geri sér ekki grein fyrir alvarleika málsins og hættunni sem þarna er á ferð,“ segir Einar Gauti í samtali við Vikudag. Umferðarslys á götunni hafa verið tíð undanfarin ár. Einar Gauti bendir á að samkvæmt tölum Samgöngustofu hafi þrjú alvarleg slys orðið á Hörgárbraut á síðustu þremur árum þar sem keyrt var á gangandi vegfarendur.

Vilja göng undir Hörgárbraut
Í vinnslu er að setja upp gangbrautarljós á svæðinu en þær framkvæmdir bæjaryfirvalda hafa dregist á langinn. Einar Gauti segir hins vegar að róttækari að­ gerða sé þörf. Íbúar í Holta­ og Hlíðahverfi vilja margir sjá undirgöng undir Hörgárbraut.

„Það þarf að fara í róttækari að­ gerðir á svæðinu en að setja upp gangbrautarljós. Það lítur út fyrir að undirgöng séu það helsta sem hægt er að gera. Eins og umræðan hefur verið vill fólk þrengja götuna en þar sem þetta er þjóðvegur 1 er það líklegast ekki hægt. Ef það er ekki í boði þarf að grípa til meiri aðgerða,“ segir Einar Gauti.

Hann segir að íbúar í hverfinu ætli að hópa sig saman og fá fund með bæjaryfirvöldum og krefjast lausna.

„Það þarf að bregðast við áður en þarna verður banaslys.“

Nýjast