Íbúar á nemendagörðum FÉSTA krefjast lækkunar á leiguverði

Á fundi sem haldinn var í gærkvöld meðal íbúa nemendagarða FÉSTA, Félagsstofnunar stúdenta á Akureyri, var rætt um leiguverð nemendagarðanna sem farið hefur stigvaxandi síðustu mánuði. Staðan er nú þannig að mánaðarleiga á íbúðum á vegum FÉSTA er hærri en á almennum leigumarkaði og dæmi eru um að fólk hafi neyðst til að flytja út af nemendagörðunum og finna sér íbúð á eigin vegum til þess að lækka leigukostnaðinn.  

Fjölmennt var á fundinum og létu íbúar óánægju sína skýrt í ljós. Niðurstaða fundarmanna var að hafna áframhaldandi greiðslum til FÉSTA þar til komið verður til móts við kröfur þeirra. Íbúarnir krefjast þess að leiguverð verði lækkað um 15% ásamt því að vísitölutenging á leiguverði verði afnumin. Listar með nöfnum þeirra íbúa sem ætla að taka þátt í greiðsluverkfallinu verða afhentir stjórn FÉSTA eftir helgi. Þetta kemur fram á vefnum; landposturinn.is, fréttavef fjölmiðlafræðinema við HA.

Nýjast