Í svartasta skóglendi Parísar

Ingibjörg Bergmann Bragadóttir
Ingibjörg Bergmann Bragadóttir

París er algjör undraborg í kringum jólin. Meðan búðargluggarnir fyllast af könglum, greni og allskonar jólajurtum sem ég þori ekki fyrir mitt litla líf að reyna að þekkja og jólamarkaðir spretta um allt getur verið alveg yndislegt að labba um og dást að fegurðinni.
Það dregur líka aðeins athyglina frá fjölda hermanna og lögregluþjóna sem standa vörð um borgina þessa stundina. En því hef ég kosið að einblína ekki á hvað kemur næst á þessum óhugnanlegu tímum í Evrópu, því að það er víst ábyggilegt að hryðjuverk sem þessi gera ekki boð á undan sér. Það gera jólin hinsvegar og því miklu skemmtilegra einhvern veginn að spá í þau frekar.

Það eina sem ég get hinsvegar sett út á París er hversu ótrúlega erfitt það er að fá hangikjöt hérna. Og hvar er laufabrauðið, maltið og appelsínið, lakkrístopparnir?

Það hefur hvarflað að mér að reyna að útvega mér hangikjöt og jafning einhversstaðar og vinur minn tjáði mér eitt sinn að hér væri skógur, rétt utan við París, sem væri einhvers konar svartur skógur, þ.e. svartur markaður. Þú ferð inn í skóginn með pening og gengur út með það sem þig vantaði. ,,Ætli þeir séu með hangikjöt þar?" spurði ég vininn, vitanlega.

Hann skildi ekki hvað ég átti við þegar ég reyndi að útskýra ,,hanged meat". Ég skil ekki hvað fór úrskeiðis.
Í þessum samræðum okkar hvarflaði það að mér að fyrir mér eru jólin ek ki í París, þau eru á Íslandi. Og þegar ég sat í lestinni á leið í skólann og Svala Björgvins sagði mér að hún hlakkaði svo til, þá rann það alveg súrrealískt upp fyrir mér hversu forfallinn Íslendingur ég er.

Þrátt fyrir það nýt ég mín vel hérna í París. Ég einblíni á þau tækifæri sem mér standa til boða og vona að námslánin leyfi mér að njóta þeirra til fulls, eins og t.d. að skauta á fyrstu hæð Eiffel-turnsins eða sjá Maríu Magdalenu og Jósep ríða um á asna í Jardin du Luxembourg. Sagan segir að maður geti sjálfur fengið að prufa... En kannski er það bara fyrir börnin, ég veit það ekki alveg, ég er ennþá að fóta mig í frönskunni.

En framar öllu vona ég að þurfi ekki að hitta franska jólasveininn eða öllu heldur fylgimann hans, „Père Fouettard“ en hans hlutverk er að lemja óþæg börn með svipu. Ekki veit ég hversu bókstaflega þessi ,,hefð" er höfð í heiðri en ég vona að það sé jafn mikil alvara í henni og barnaætunni henni Grýlu okkar. Ef ekki, þá get ég bara þakkað fyrir að vera 22 ára og vonað að „Père Fouettard“ hafi lítinn áhuga á að heimsækja fjórtán fermetrana mína hérna í Montmarte hverfinu.

Ingibjörg Bergmann Bragadóttir

 

Nýjast