Akureyrarbær hefur lagt fram tillögu að áætlun vegna mats á umhverfisáhrifum landmótunar og stækkunar golfvallarins að Jaðri. Golfvöllurinn er nálægt vaxandi byggð á Akureyri og felur framkvæmdin í sér haugsetningu og landmótun á jarðvegi sem fellur til vegna gatna- og húsagerðar við framkvæmdir í nágrenninu og nýtingu hans við stækkunina.
Frá þessu er greint í Morgunblaðinu. Gert er ráð fyrir haugsetningu á um 500.000 rúmmetrum af ómenguðum jarðvegi. Framkvæmdatíminn er áætlaður um 20-30 ár, allt eftir hraða framkvæmda í bænum. Í umfjöllun Morgunblaðsins segir að framkvæmdasvæðið sé um 8,5 hektarar og er allt svæðið ætlað undir stækkun núverandi 18 holu golfvallar og nýs níu holu golfvallar.
Hinn nýi völlur verður vestan megin við núverandi golfvöll. Landsvæðið er í eigu Akureyrarbæjar en rekstraraðili Jaðarsvallar er Golfklúbbur Akureyrar. Gildandi deiliskipulag fyrir Jaðarsvöll gerir ráð fyrir stækkun golfvallarins en unnið er að breytingu á því sem tekur tillit til haugsetningar og landmótunar. Allt frá árinu 2007 hafa verið áform um stækkun Jaðarsvallar samkvæmt samningi milli Akureyrarbæjar og GA.