„Í okkar huga skiptir ekki öllu máli hvort fólk fær bækur eða annað efni að láni. Við viljum fyrir alla muni að fólk komi við, hvað svo sem það er að gera og eigi hér góðar og gefandi stundir,“ segir Hólmkell Hreinsson amtsbókavörður á Amtsbókasafninu á Akureyri.
Útlán hafa smám saman í áranna rás dregist saman, árið í fyrra var þar engin undantekning, útlánum fækkaði um 8% frá árinu þar á undan. Engu að síður fengu Akureyringar tæplega 145 þúsund safngöng að láni á liðnu ári, sem eru 7,7 útlán á hvern íbúa. Gestum fækkaði um 1% á milli ára og segir Hólmkell að það sé í samræmi við þróun sem sjá megi á almenningsbókasöfnum í Evrópu. Minna er tekið að láni en áður var, en heimsóknum ýmist fjölgar eða þær standa í stað.
Um 400 manns líta við daglega
„Það er allt að breytast svo hratt og við reynum af fremsta megni að fylgja þróuninni og sjá hvað er að gerast annars staðar, hvernig aðrir bregðast við. Nú þurfum við að heyra skoðanir Akureyringa á því hvernig þeir vilja nýta þessa eign sína, Amtsbókasafnið,“ segir Hólmkell.
Um 400 manns að jafnaði líta við á bókasafninu daglega, ekki endilega til að grípa með sér bækur eða annað efni. Kaffihúsið nýtur vinsælda og hópar af ýmsu tagi hittast á safninu til að sinna sínum hugðarefnum.