Við höfum nokkrar áhyggjur af því að þröngt verði um á leigumarkaði hér, segir Ingimar Ragnarsson formaður Hverfissráðs Hríseyjar, en á fundi ráðsins á dögunum var m.a. fjallað um sölu fasteigna Akureyrarbæjar í Hrísey, en þær eru við Miðbraut. Ingimar segir að sveitarfélagið hafi átt 6 íbúðir við Miðbraut, en þær hafi á sínum tíma verið byggðar á vegum þess og ætlaðar til útleigu. Þær breytingar hafi orðið að sveitarfélög um land allt séu að losa sig við þess háttar íbúðir. Ingimar segir að fasteignaverð í Hrísey hafi verið þokkalegt upp á síðkastið, en mönnum þykir verð á þeim leiguíbúðum sem boðnar eru til sölu oft frekar lágt.
Við höfum þó einkum áhyggjur af því að eftir sölu á þessum íbúðum er varla til neinn leigumarkaður í Hrísey lengur, segir hann, en þegar eru þrjár íbúðir við Miðbraut af sex seldar. Til viðbótar á sveitarfélagið fimm íbúðir í húsinu Hlein, þar af eru þrjár þeirra mjög litlar. Eftirspurn er nokkur eftir leiguhúsnæði, fólk er tilbúið að flytjast hingað, en vill kannski ekki kaupa íbúð strax, segir Ingimar og bætir við að atvinnuástand í eynni sé þokkalegt. Margir sæki líka í afslappað og rólegt andrúmsloft sem einkenni Hrísey.
Ingimar er bjartsýnn á að íbúatalan þokist á næstu mánuðum upp á við, en um 180 manns búa í Hrísey nú. Þetta hefur verið svolítið rokkandi hjá okkur, farið niður í um 160 íbúa og allt upp undir 200 þegar mest er, segir hann.