Húsavík iðar af lífi frá morgni til kvölds

Á meðan veðrið leikur við Norðlendinga sigla allir hvalaskoðunarbátar bæjarins með fullfermi af farþ…
Á meðan veðrið leikur við Norðlendinga sigla allir hvalaskoðunarbátar bæjarins með fullfermi af farþegum frá morgni til kvölds. Mynd/epe

Það fer ekki framhjá Húsavíkingum að nú stendur yfir háannatími ferðaþjónustunnar. Síðustu vikur hefur Húsavík við Skjálfanda iðað af lífi frá morgni til kvölds. Ekki hefur spillt fyrir að umferð skemmtiferðaskipa, stórra og smárra hefur verið stöðug en nokkur fjölgun hefur orðið á bókunum þessara skipa til hafna Norðurþings á meðan flest önnur sveitarfélög hafa þurft að sætta sig við fækkun. Þessu má að miklu leiti þakka kynningarátaki sem Hafnarsjóður réðist í í vetur og vor í samstarfi við Húsavíkurstofu.

 

Gott hljóð í ferðaþjónustuaðilum

Ferðþjónustuaðilar sem Vikublaðið ræddi við eru sammála um að sumarvertíðin sé góð og talsverð bæting frá fyrra ári þegar júni brást svo að segja eins og hann lagði sig.

Ármann Örn Gunnlaugsson, framkvæmdastjóri Sjóbaðanna var ánægður með síðustu vikur og kvaðst bjartsýnn fyrir framhaldinu.

„Þetta er búið að vera mjög fínt hjá okkur, betra en í fyrra af því að veðrið er skárra. Júní í fyrra var nátttúrlega svo hrikalega vondur,” segir hann.

Þá segir hann að samsetning þjóðerna meðal gesta sé svipuð og áður nema Norðurlandabúum fari fjölgandi. „Ég er ekki að taka eftir mikill fækkun meðal Breta og Bandaríkjamanna eins og margir hafa verið að hafa áhyggjur af en hef þó tekið eftir fjölgun á Skandinövum,“ segir hann.

Skemmtiferðaskip gæða þorpin lífi

Stefán Guðmundsson framkvæmdastjóri GG Hvalaferða tekur undir með Ármanni um gott sumar

„Á meðan veðrið er okkur hliðhollt þá er starfsemin mjög góð, í stuttu máli,“ segir Stefán og bætir við að skemmtiferðaskipin hafi mikið að segja fyrir húsvíska hagkerfið.

„Þau hafa bara gríðarlega mikið að segja fyrir okkur hér á Húsavík. Mér finnst alltaf frekar broslegt þegar fólk er að kvarta yfir ferðamönnum, traffíkinni sem þeim fylgir í þennan stutta tíma sem hún varir og skemmtiferðaskipunum en sömu aðilum finnst ekkert sjálfsagðara en að skella sér til Tene í tíma og ótíma. Þetta er mjög fyndið,“ segir Stefán og vísar þar aðallega í umræðuna um ferðaþjónustuna á Íslandi eins og hún var fyrir 2-3 árum og átti það til að vera frekar neikvæð og segir Stefán það hafa stafað af vanþekkingu.

„Þetta er það besta í þessari ferðaþjónustu og það auðveldasta fyrir litlu þorpin hringinn í kringum landið. Fyrir þau þorp sem geta boðið upp á bryggjupláss, hleypt fólki í land og tekið vel á móti því, þá er þetta langbesta leiðin fyrir þessi þorp inn á ferðaþjónustumarkaðinn,“ segir Stefán um skemmtiferðaskipin og bætir við að sumarið sé búið að vera gott hjá GG hvalaferðum fyrir utan eina viku í júní.

„Þegar aðalmánuðirnir í þessu eru júní, júlí og ágúst, þá er það auðvitað gríðarlegt högg að missa heila viku. Ein vika í júní þar sem við komumst ekkert á sjó, þýðir bara að 25% af tekjunum þann mánuðinn hverfa bara eins og dögg fyrir sólu. En ég sagði nú í vor að ég hefði góða tilfinningu fyrir þessu sumri og veðurfarinu. Hingað til hefur það gengið eftir,“ segir hann.

Nýjast