Húllumhæ í Eyjafirði

Gestkvæmt verður á Eyjafjarðarsvæðinu í vikunni og ber hæst stóra viðburði á svæðinu, s.s. Fiskidaginn mikla á Dalvík og Handverkshátíð í Eyjafjarðarsveit. Ekki er óvarlegt að ætla að gesti á svæðinu megi telja í  tugum þúsunda. Í ljósi þessa hafa aðilar á Eyjafjarðarsvæðinu og forsvarsmenn þessara hátíða tekið höndum saman um að skipuleggja viðburðadagskrá á svæðinu og kynna hana undir heitinu "Húllumhæ - viðburðavika í Eyjafirði".

Markmiðið er að kynna á skipulegan hátt fyrir gestum á svæðinu það sem er í boði í afþreyingu og skemmtun hvers konar. Húllumhæ - viðburðavika í Eyjafirði stendur dagana 8. til 15. ágúst. Þátttakendur eru rösklega 20 og á 10 af þessum stöðum geta gestir fengið stimpil sem kvittun fyrir komu. Með því að safna fimm stimplum geta gestir tekið þátt í léttum leik þar sem góðir vinningar verða í boði. Óhætt er að segja að mikið verði um að vera á svæðinu þessa daga. Auk hátíðanna á Dalvík og í Eyjafjarðarsveit verða golfmót á nokkrum völlum á Eyjafjarðarsvæðinu, tveir húsdýragarðar opnir, sögusigling frá Akureyri, knattspyrnumót stúlkna á Siglufirði, handverkshús opið í Eyjafjarðarsveit, jólaís kynntur í Eyjafjarðarsveit, söfn opin og þannig mætti áfram telja. Eins og áður segir er Húllumhæ - viðburðavika 2007 samstarfsverkefni ferðaþjónustuaðila á Eyjafjarðarsvæðinu og naut verkefnið stuðnings Vaxtarsamnings Eyjafjarðarsvæðis.

Nýjast