Á aðalfundi Framsýnar- stéttarfélags í gærkvöld, var samþykkt eftirfarandi ályktun varðandi hugmyndir sem uppi eru um orkuflutninga frá Íslandi til útlanda: Aðalfundur Framsýnar- stéttarfélags hafnar alfarið hugmyndum Landsvirkjunar og stjórnvalda um að flytja út orku með sæstreng frá Íslandi til Evrópu. Að mati fundarins ber Íslendingum að ganga vel um þær náttúruauðlindir sem við búum yfir, með það að markmiði, að nýta þær með skynsamlegum hætti til atvinnusköpunar og framfara á Íslandi. Komi til þess að náttúruauðlindir á Íslandi verði virkjaðar til atvinnusköpunar í Evrópu mun það án efa draga úr hagvexti og atvinnuuppbygginu á Íslandi með hækkandi raforkuverði til fyrirtækja og heimilanna í landinu. Í því mikla endurreisnarstarfi sem framundan er eftir hrunið er ábyrgðarhluti að ætla að mæta því með því að selja orkuna til útlanda. Því mótmælir, aðalfundur Framsýnar- stéttarfélags.
Á aðalfundinum kom fram mikil ánægja með starfsemi Framsýnar, það er þjónustu við félagsmenn og fjárhagslega stöðu þess. Fundarmenn töldu ástæðu til að klappa fyrir stjórnendum og starfsmönnum félagsins. Á síðasta ári varð tekjuafgangur af öllum sjóðum félagsins kr. 84.941.149,- er var kr. 81.608.720,- árið 2010. Heildareignir félagsins námu kr. 1.260.947,- í árslok 2011 samanborið við kr. 1.175.376.737,- í árslok 2010.
Sterk staða gerir félaginu kleift að gera betur við félagsmenn en almennt þekkist meðal sambærilegra stéttarfélaga. Þá nýtur félagið mikils trausts meðal félagsmanna samanber fyrirliggjandi skoðanakannanir. Aðalsteinn Á. Baldursson var endurkjörinn sem formaður félagsins til næstu tveggja ára að telja. Um 2.300 félagsmenn eru í Framsýn- stéttarfélagi og nær félagssvæði þess frá Vaðlaheiði að Raufarhöfn, segir í fréttatilkynningu.