Nýverið lögðu þær Þórhalla Sigurðardóttir, Kolbrún Sigurlásdóttir og Anna Karen Sigurjónsdóttir land undir fót og ferðuðust til Noregs. Allar starfa þær við Hjúkrunarfræðideild Háskólans á Akureyri. Þórhalla er aðjúnkt, Kolbrún er aðjúnkt og starfar sem verkefnastjóri klínísks náms og Anna Karen sem verkefnastjóri við færni- og hermisetur. Með í för voru einnig níu stúdentar á 2. ári í hjúkrunarfræði.
Þau voru á ferð sem fulltrúar Hjúkrunarfræðideildarinnar sem er þátttakandi í alþjóðlegu örnámskeiði þar sem námsmarkmiðin felast í að læra hermikennslu og heilsufarsmat með aðstoð hugbúnaðar sem heitir Body Interact.
Samvinna, samstarf og sjósund
Body interact er hugbúnaður á sviði sýndarveruleika fyrir hermikennslu, sem nýtist nemendum og starfsfólki á sviði heilbrigðisvísinda. Lögð er áhersla á klíníska þekkingu, gagnrýna hugsun og lausnamiðaða nálgun við að leysa tilfellin.
„Við hófum ferðina í Osló og fórum þaðan til Drammen þar sem Ösp Egilsdóttir, hjúkrunarfræðingur og deildarforseti hjúkrunarfræðideildar University of South Eastern Norway (USN), tók á móti okkur. Þar hittum við portúgalska sendiherrann sem er búsettur í Noregi sem er einnig sendiherra fyrir Ísland og það var virkilega skemmtileg tilviljun,“ segir Anna Karen um upphaf ferðarinnar. Hún bætir við: „Nemendur skólanna þriggja voru á mismunandi árum í náminu, með mismikla þekkingu og reynslu á heilsufarsmati skjólstæðinga og hugbúnaðinum sem notaður var. Þetta gerði hópinn fjölbreyttan og þannig var hægt að nálgast verkefnið frá mörgum sjónarhornum.“
Í Drammen fengu nemendur að spreyta sig í að leysa tilfelli með Body Interact og kennslu í heilsufarsmati. Þar var þó ekki aðeins lært heldur einnig notið þess sem Noregur hafði upp á að bjóða, farið var í gufu og sjósund, verslað og notið þess að eyða tíma saman og kynnast sem hópur. Daginn eftir var förinni heitið til Gol, þar sem gist var á frægu skíðahóteli sem heimafólk hefur í gegnum árin nýtt vel í frítíma sínum.
Frá hótelinu var farið til Torpomoen þar sem er aðstaða til að kenna hjúkrunarnemendum frá USN og þar var nemendum skipt í blandaða hópa til að vinna hópverkefni. Í Hallendal var svo afskekkt sjúkrahús skoðað, sem þjónar mjög víðfeðmu svæði. Þar voru meðal annars kynningar á starfsemi svæfingalæknis sem starfar á þyrlu og ljósmóður á svæðinu.

Anna Karen verkefnastjóri við færni- og hermisetur
Þríleikurinn í námskeiðinu
Ferðin var vikulöng þar sem stúdentar og kennarar öðluðust haldbæra þekkingu á starfsháttum og samvinnu milli landa en síðast og ekki síst á tækifærum og möguleikum sem Body Interact býður upp á í kennslu, sveigjanlegu námi og fjarkennslu.
Örnámskeið á þessa vísu kallast á ensku Blended Intensive Program (BIP) og þetta námskeið er í samstarfi við tvo háskóla, University of South Eastern Norway/USN og Escola Superior De Saude/ESS Lisboa í Portúgal. Verkefnið var styrkt af Erasmus+, sem gerði stúdentum og starfsfólki kleift að taka þátt.
Haustið 2026 er svo stefnan sett á að fulltrúar frá Noregi og Íslandi heimsæki Portúgal og haustið 2027 komi til Íslands fulltrúar frá Noregi og Portúgal. Þríleikur eins og í Föruneyti hringsins (e. Lord of The Rings).

