Ný verslun í Hrísey verður opnuð á morgun, laugardaginn 6. júní, og verður opin alla daga í sumar frá kl. 10-18. Eins og Vikudagur greindi frá hætti Júllabúð rekstri í byrjun mars sökum erfiðleika í rekstri og hefur engin verslun verið á eyjunni síðan.
Í byrjun maí var stofnað hlutafélag um verslunarrekstur í Hrísey og heitir það Hríseyjarbúðin ehf. Alls söfnuðust 3.8 milljónir króna í hlutafé og standa 55 hluthafar á bak við þá upphæð.
Það eru ófáar vinnustundirnar sem liggja að baki og ótrúlegt hvað fólk er búið að leggja á sig mikla vinnu til að koma þessu á koppinn. Búið er að ráða starfsmann í verslunina í sumar og nú er verið að leggja lokahönd á framkvæmdir. Von á fyrstu vörusendingunni í dag og svo er bara að opna og koma lífi í húsnæðið, segir Linda María Ásgeirsdóttir í Hrísey.