Hríseyingum fækkað um tæplega hundrað á 20 árum

Á síðastliðnum tuttugu árum hefur íbúum í Hrísey fækkað um tæplega hundrað. Á árinu 1995 voru íbúar í Hrísey 270 en er nú 172, samkvæmt tölum frá Hagstofu Íslands. Þá hefur íbúum í Grímsey einnig fækkað töluvert en þeir eru núna 76 en voru 117 árið 1995. Báðar eyjarnar eru hluti af verkefninu „Brothættar byggðir“, en markmiðið með verkefninu er að efla byggð á viðkomandi stað, m.a. að fá fram skoðanir íbúanna sjálfra á framtíðarmöguleikum heimabyggðarinnar og leita lausna á þeirra forsendum í samvinnu við ríkisvaldið, landshlutasamtök, atvinnuþróunarfélag, sveitarfélagið, brottflutta íbúa og aðra.

Helga Íris Ingólfsdóttir, verkefnastjóri brothættra byggða í Hrísey og Grímsey, segir í samtali við Vikudag að mikil fólksfækkun sé ein aðalástæðan fyrir því að Hrísey sé hluti af Brothættum byggðum. Hún segir eyjarnar tvær vera misjafnlega staddar í ferlinu.

„Verkefnastjórn í Hrísey hefur haldið þrjá fundi og þar er verið að vinna að stefnumótun sem byggir á niðurstöðum íbúaþingsins og vinnu verkefnastjórnar. Ætlunin er að kynna hana fyrir íbúum á íbúafundi núna í byrjun næsta árs. Verkefnastjórn Grímseyjar hefur haldið einn símafund og fyrirhugað er að hafa annan fund núna í lok árs,“ segir Helga.

„Í janúar er síðan áætlað að halda íbúaþing í Grímsey þar sem línurnar verða lagðar fyrir allt verkefnið framundan. Þar er vinnan við brothættar byggðir enn á algjöru frumstigi.“

-Vikudagur, 17. desember

Nýjast