Með hækkandi sólu kemur í ýmislegt í ljós, á milli trjáa og ofan í skurðum. Glaðlegir túnfíflar, spriklandi köngulær, skærgrænt gras - og því miður oft talsvert rusl. Þá er kjörið tækifæri til að taka höndum saman og hreinsa til, áður en grasið hækkar og runnarnir þéttast.
Starfsfólk Norðurorku ásamt fjölskyldum fór um á dögunum með plokktangir og hrífur og tíndu rusl í kringum höfuðstöðvarnar á Rangárvöllum. Veðurguðirnir voru heldur betur með fólkinu í liði og hjálpuðu til við að skapa góða stemningu við ruslatínsluna segir á vef Norðurorku.
Skemmtileg hefð
Hreinsunarátakið er orðið að skemmtilegri hefð hjá fyrirtækinu þar sem starfsfólk ásamt fjölskyldum sameinast um að fegra nærumhverfi sitt. Að tína rusl snýst þó um meira en að hreinsa til - þetta er líka frábært tækifæri til útivistar, hreyfingar, samveru og núvitundar, þar sem öll leggja sitt af mörkum í þágu umhverfisins. Miklu rusli var safnað í poka á skömmum tíma. Að verki loknu settust plokkarar saman undir berum himni og gæddu sér á dýrindis pizzum í sólinni – vel að því komnir eftir vel unnið verk.