Hreinsum rusl í kringum okkar veitingastaði

Sveinn Rafnsson veitingamaður á Kaffi Akureyri og Vélsmiðjunni, segir að starfsfólk staðanna hafi til langs tíma lagt sig fram um að hreinsa til í kringum þá báða, eftir að þeim hefur verið lokað um helgar. Hann segir það vissulega rétt að allt of mikið rusl sé sjáanlegt í miðbænum eftir skemmtanahald um helgar og það helgist m.a. af því að ekki sé hreinsað til í kringum aðra veitingastaði eftir nóttina.  

"Vandamálið er líka það að bærinn ekki hreinsaður lengur á sunnudögum og það setur svartan blett á alla, enda umgengnin í bænum alveg rosaleg," segir Sveinn. Hann segir að ástandið hafi síst batnað eftir að reykingar voru bannaðar inni á stöðunum. Nú fari fólk út til að reykja og þótt dallar séu við hendina kasti fólk stubbunum frá sér hvar sem er. "Það er eins og öllum sé sama en þannig á þetta ekki að vera. Það skiptir máli hvernig bærinn okkar lítur út og er eitthvað sem fólk ætti að hugsa um."

Eins og fram kom í Vikudegi nýlega, er töluverður sóðaskapur sjáanlegur í miðbænum eftir gleðskap um helgar. Reyndar sagði Jón Birgir Gunnlaugsson verkefnisstjóri umhverfismála hjá framkvæmdadeild bæjarins, að það versta væri, að þetta ætti ekki aðeins við um miðbæinn heldur allan bæinn.

Nýjast