Hreinn Þór Hauksson viðskiptafræðingur hefur verið ráðinn verkefnisstjóri atvinnumála hjá Akureyrarbæ og staðfesti stjórn Akureyrarstofu ráðninguna á síðasta fundi. Hreinn er 31 árs að aldri og er fæddur og uppalinn á Akureyri. Hann er giftur Helgu Jónasdóttur og eiga þau tvö börn og von á því þriðja innan skamms.
Hreinn útskrifaðist frá Menntaskólanum á Akureyri árið 2001. Hann lauk B.sc gráðu í viðskiptafræði frá Háskólanum í Reykjavík árið 2005 og löggildingu í verðbréfamiðlun frá sama skóla 2008. Að loknu námi í HR starfaði Hreinn innan fjárstýringar og markaðsviðskipta Íslandsbanka í um fimm ár til loka ársins 2009. Í kjölfarið fluttist hann með fjölskylduna til Akureyrar og starfaði innan útibús Íslandsbanka við lánamál og eignastýringu. Árið 2011 flutti fjölskyldan til Lundar í Svíþjóð þar sem Hreinn lauk meistaragráðu í frumkvöðlafræðum og nýsköpun frá Háskólanum í Lundi nú í vor.
Hreinn spilaði handknattleik með KA til og með árinu 2002 og varð Íslandsmeistari með liðinu það sama ár. Hann lék með Fylki í tvö ár 2005-2007 og svo aftur með Akureyri Handboltafélagi upp frá því.
Hreinn Þór tekur til starfa á Akureyrarstofu í byrjun ágúst.