Hrafnagilsbúið tilnefnt sem ræktunarbú ársins

Jón Elvar tók á móti viðurkenningu fyrir tilnefninguna og auk þess við verðlaunum, f.h. Árna Björns …
Jón Elvar tók á móti viðurkenningu fyrir tilnefninguna og auk þess við verðlaunum, f.h. Árna Björns Pálssonar, afreksknapa, fyrir hæstu aðaleinkunn klárhrossa 2025, en þau verðlaun hlaut hann fyrir glæsilegan árangur með stóðhestinn Miðil frá Hrafnagili Mynd á vefsíðu Eyjafjarðarsveitar fengin af facebook færslu Berglindar Kristinsdóttur

Hrafnagilsbúið í Eyjafjarðarsveit var eitt af 12 hrossaræktarbúum sem fagráð í hrossarækt valdi til árlegrar heiðursviðurkenningar Bændasamtaka Íslands, sem ræktunarbú ársins. Þetta kemur fram á vefsíðu Eyjafjarðarsveitar.

Á Hrafnagili búa hjónin Jón Elvar Hjörleifsson og Berglind Kristinsdóttir. Í um 20 ár hefur Jón Elvar ræktað hross kennd við Hrafnagil. Hvað varðar ræktunarmarkið hefur Jóni Elvari ekki vafist tunga um tönn (frekar en oft áður) þegar hann tíundaði þau í viðtali við Eiðfaxa 21. mars 2021:

„Ég legg mesta áherslu á fótaburð og fas, háar herðar og gott geðslag. Ég þoli yfirleitt ekki 4wd skriðdrekahross. Þau eiga að setjast á rassinn. Annars er þetta allt gott í bland. Flestar mínar hryssur eru alhliða þó ég noti oftast klárhesta. Annars er ég að reyna að halda í gamla stofninn hér á Hrafnagili sem Hjalti Jósefsson og Pálína áttu."

Glæsilegur árangur

Skemmst er frá því að segja að um síðastliðna helgi, á hinni árlegu hrossaræktarráðstefnu fagráðs hrossabænda, Bændasamtaka Íslands, tók Jón Elvar á móti viðurkenningu fyrir tilnefninguna og auk þess við verðlaunum, f.h. Árna Björns Pálssonar, afreksknapa, fyrir hæstu aðaleinkunn klárhrossa 2025, en þau verðlaun hlaut hann fyrir glæsilegan árangur með stóðhestinn Miðil frá Hrafnagili sem náði 9,12 í aðaleinkunn, án skeiðs. Stóðhesturinn Miðill frá Hrafnagili er aðeins 5 vetra og er þetta afburðaárangur hjá ekki eldri gæðingi. Miðill er kominn í eigu Önju Egger-Meier en verður áfram í höndum Árna Björns.

Nýjast