Guðmundur segir ekki útilokað að fleiri færeyskir skíðamenn leggi leið sína í Hlíðarfjall næsta vetur, en hugmyndin sé að bjóða upp á þrjár til fjórar ferðir þá og ef af verður megi gera ráð fyrir 3-400 manns þaðan á næsta vetri. „Við höfum rætt þessi mál, að markaðssetja Hlíðarfjall fyrir erlenda skíðamenn og teljum að tækifærin séu til staðar," segir Guðmundur en menn beina sjónum einkum að Danmörku og Bretlandi í þeim efnum. Í þessum löndum segir hann að séu um 1,5 milljónir manna sem stundi skíði og bregði sér af og til af bæ til að stunda íþrótt sína. Næðu Akureyringar til sín um 1% af þeim fjölda yrði um að ræða um 15 þúsund manns, „og við yrðum alsælir með það, við þurfum ekki meira," segir Guðmundur. Flestir dvelja á staðnum í fjóra daga sem þýðir að um 60 þúsund erlendir gestir bættust við þá íslensku gesti sem sækja Hlíðarfjall heim á hverjum vetri. Að jafnaði hafa á bilinu 70 til 80 þúsund manns komið í fjallið yfir veturinn og segir Guðmundur að nú stefni í að gestir fari yfir 90 þúsund í vetur.
„Ég spái því að veruleg aukning verði í komum erlendra skíðamanna til Akureyrar á næstu árum að því tilskildu að flogið verði beint hingað norður. Þetta er stór markaður en við þurfum litla sneið af kökunni," segir Guðmundur. „Við höfum báða fætur á jörðinni, en það má segja að þessi þróun sé þegar hafin með komu Færeyinganna nú, það er fyrsta skrefið."
Hann segir að vissulega þurfi að huga að fleiri þáttum stefni menn að því að fjölga erlendum skíðamönnum í bænum, m.a. fjölgun gistirýma og menn séu þegar farnir að skoða þann þátt.