Samkvæmt heimildum Vikublaðsins kom stjórn PCC BakkaSilicon hf. á Húsavík saman í gær til að ræða yfirvofandi breytingar á rekstri kísilversins á Bakka. Forstjóri félagsins, Rúnar Sigurpálsson vildi ekki tjá sig um málið þegar blaðamaður leitaði eftir því í gærkvöldi en starfsmenn verksmiðjunnar hafa verið boðaðir á fund sem hófst nú klukkan 15.
Sveitarstjóri Norðurþings, Kristján Þór Magnússon vildi heldur ekki tjá sig um það hvort sveitarstjórn hafi verið gert viðvart um yfirvofandi uppsagnir þegar blaðamaður leitaði eftir því í gærkvöld. Legið hefur fyrir um nokkurt skeið að til framleiðslustöðvunar gæti komið til þess að gera við báða ofna verksmiðjunnar, Boga og Birtu en brösulega hefur gengið að halda þeim í rekstri allt frá því að verksmiðjan hóf framleiðslu. Reglulega hefur þurft að slökkva á ofnunum vegna vandamála í stoðkerfum þeirra.
Aðalsteinn Á. Baldursson, formaður Framsýnar stéttarfélags staðfesti í samtali við blaðamann í gær að honum hafi borist til eyrna efni fundarins og að stjórnendur kísilversins hafi óskað eftir því að stéttarfélagið sendi fulltrúa á fundinn. Hann vildi ekki tjá sig að öðru leiti en því að til stæði að tilkynna um ákveðnar breytingar sem óheppilegt væri að starfsfólk frétti af í gegnum fjölmiðla. Vikublaðið hefur hins vegar áreiðanlegar heimildir fyrri því að tilkynnt verði um uppsagnir á fundinum með starfsfólki kísilversins sem hófst rétt í þessu. Heimildamaður blaðsins vissi ekki hversu margar uppsagnirnar yrðu en að þær yrðu margar.
Hvorki fulltrúar sveitarstjórnar Norðurþings né stjórnendur kísilvers PCC á Bakka hafa viljað tjá sig um efni fundarins
Legið hefur fyrir að rekstur verksmiðjunnar hefur verið erfiður en greint var frá því í apríl að fimm lífeyrissjóðir og Íslandsbanki hefðu lækkað virði hlutafjár síns í kísilverinu um tæpa tvo milljarða vegna óvissu um starfsemi kísilversins. Fréttablaðið greindi frá niðurfærslum lífeyrissjóðanna og sagði svo frá tapi á rekstri kísilversins á fyrsta ársfjórðungi vegna framleiðslutaps.
PCC hefur nú sent frá sér tilkynningu þar sem staðfest er að framleiðsla verði stöðvuð tímabundið vegna verulegra neikvæðra áhrifa á verð og eftirspurn kísilmálms á heimsmarkaði. Er það rakið til áhrifa á kórónuveirufaraldrinum. Þá verður stórum hluta starfsfólks fyrirtækisins sagt upp. Tekið er skýrt fram að um tímabundnar aðgerðir sé að ræða. Félagið gerir ráð fyrir að endurráða starfsfólk þegar framleiðslan fari af stað.
„Það var erfitt að taka þessa ákvörðun og hefðum við fundið raunhæfa leið til að forðast uppsagnir hefðum við farið hana. Ég er hins vegar viss um að heimsmarkaðurinn muni taka við sér að nýju. Þegar það gerist munum við setja uppgerða verksmiðjuna aftur í gang og ráða aftur eins mikið af fólkinu okkar og við getum,“ segir Rúnar Sigurpálsson forstjóri kísilversins í tilkynningunni.
Á meðan slökkt verður á ofnunum verður viðhaldi og endurbótum á hreinsivirki sinnt. Það felur meðal annars í sér að hluti þaksins verður fjarlægður og nýjum tækjabúnaði komið fyrir. Þessari viðhalds- og endurbótavinnu ætti að vera lokið í ágústlok 2020.
Fréttin var uppfærð kl: 15:44