10. nóvember, 2007 - 11:24
Hópi karlmanna, um 10 til 20 manns, hefur nú verið meinað að sækja skemmtistaðina Kaffi Akureyri og Vélsmiðjuna. "Ástæðan er dónaleg framkoma þeirra gangvart konum," segir Birgir Torfason sem rekur staðina ásamt Sveini Rafnssyni. Um síðustu helgi komu upp slagsmál milli þessara manna sem eru af erlendu bergi brotnir og hóps Íslendinga, en slegið hefur í brýnu af og til undanfarna mánuði að sögn Birgis. Ekki er þó ljóst hvort þau átök tengjast þjóðerni mannanna né hver hefur átt upptök að átökunum. Birgir segir að sem betur fer sé ekki um daglegt brauð að ræða en fylgst hafi verið með umræddum hópi um skeið og eftir atburði liðinnar helgar hafi sú ákvörðun verið tekin að meina þeim aðgang að skemmtistöðum félaganna. „Það hefur verið nokkurt vandamál í kringum þessa menn, þeir hafa sýnt konum á okkar stöðum mikinn dónaskap og það verður ekki liðið í okkar húsum. Við höfum ákveðið að loka alfarið á þá," segir Birgir.