Hlíðarfjall verði opið allt árið

Hlíðarfjall að sumarlagi.
Hlíðarfjall að sumarlagi.

Akureyrarbær hefur auglýst eftir hugmyndum um nýtingu og rekstur útivistasvæðisins í Hlíðarfjalli yfir sumarmánuðina. Óskar bærinn eftir hugmyndum um nýtingu á svæðinu, byggingum og búnaði, í heild eða að hluta. Í auglýsingunni segir m.a. að í Hlíðarfjalli sé einstakt útsýni yfir Akureyri og Eyjafjörð og sumarrekstur mætti ná til loka september. Hugmyndir um sumarrekstur í Hlíðarfjalli eru ekki algjörlega nýjar af nálinni.

Fyrir um tveimur árum stóð til að setja upp eins manns sleðarennibraut niður Andrésarbrekkuna sem yrði opin yfir sumartímann. Á bakvið verkefnið var félagið Zalibuna sem samanstóð af fjórum ungum frumkvöðlum sem útskrifuðust frá verkfræðisviði Háskóla Íslands og þróuðu hugmyndina í lokaverkefni sínu. Þar var hugmyndin að nota stólalyftuna til að ferja fólkið upp og niður Andrésarbrekkuna myndi svo liggja 1300 m langur álprófíll sem sleðarnir festast á og færi niður fjallið. Ekkert varð þó úr þessum hugmyndum.

Ellert Örn Erlingsson, forstöðumaður íþróttamála á Akureyri, segir við fyrirspurn Vikudags að hugmyndin um Zalibununa hafi ýtt við bæjaryfirvöldum. „Okkur finnst spennandi að opna fyrir þann möguleika að hafa sumarstarfsemi í Hlíðarfjall sem gæti þá t.d. notað búnað og mannvirki sem fyrir eru. Á svæðinu hafa t.d. fjallahjólagarpar lagt braut og notast við. Það er ýmislegt hægt að gera,“ segir Ellert. Nánari upplýsingar má sjá á vef Akureyrarbæjar.

 

Nýjast