Nú í ár eru nákvæmlega 50 ár liðin síðan hestamenn á Akureyri og í Eyjafirði hófu uppbyggingu mótsvæðis hestamanna á Melgerðismelum og árið 1976 var fyrsta fjórðungsmót Norðlenskra hestamanna haldið þar.
Síðan var Íslandsmót í hestaíþróttum haldið þar árið 1981. Fjórðungsmót voru aftur haldin árin 1983 og 1987 og svo var Landsmót hestamanna haldið þar árið 1998. Loks var Íslandsmót í hestaíþróttum haldið aldamótaárið 2000.
Í þessi 50 ár hefur sterkur kjarni félagsmanna Léttis og Funa unnið á Melgerðismelum á hverjum tíma að uppbyggingunni og skipta vinnustundirnar eflaust hundruðum þúsunda í gegnum þessi ár ef allt er talið.
Í vikunni var svokallaður vinafundur þegar þeir félagarnir Sigfús Ólafur Helgason og Hólmgeir Valdemarsson félagsmenn Léttis og reyndar heiðursfélagar einnig hóuðu saman á melunum góðum hópi hestamanna frá Akureyri og Eyjafirði ásamt mökum sem hafa unnið mikið starfa á einhverjum tímapunkti á Melgerðismelum í þessi 50 ár.
Nú var ekki skófla, hamar eða pensill með í för, heldur bara gleði, stolt og ánægja.
Nú var bara notið góðra veitinga og spjallað, rifjað upp og glaðst á góðum stað og var þetta sérstakur vinafundur í tilefni 50 áranna.
Menn voru sammála um að í dag séu Melgerðismelar einhvert glæsilegasta útivistarsvæði hestamanna á landinu, með óþrjótandi reiðleiðir á mjúku og einstaklega fallegu landi sem svo sannarlega hefur tekið miklum breytingum á þessum 50 árum sem liðin eru síðan uppbyggingin hófst.
Allir melarnir eru nú gróið svæði og gríðarmikil skógrækt er þarna að vaxa til himins svo mörgum metrum skiptir og allt þetta er mannanna verk m.a. þessara manna og kvenna sem hittumst á Melgerðismelum í gær.