Hermann Jón gefur kost á sér í 1. sætið hjá Samfylkingunni

Hermann Jón Tómasson bæjarstjóri á Akureyri gefur kost á sér í 1. sæti á lista Samfylkingarinnar fyrir bæjarstjórnarkosningar sem fram fara í vor. Prófkjör sem ræður röð fimm efstu manna á listanum fer fram þann 30. janúar næstkomandi. Hermann Jón hefur verið bæjarfulltrúi og formaður bæjarráðs frá 2006 og tók við starfi bæjarstjóra í júní 2009.  

Hann hefur auk þess gengt ýmsum trúnaðarstörfum fyrir Akureyrarbæ. Kjörtímabilið 2002 - 2006 var Hermann varabæjarfulltrúi og sat í skólanefnd sem fulltrúi Samfylkingarinnar. Hermann Jón situr í ráðgjafanefnd jöfnunarsjóðs sveitarfélaga og launanefnd sveitarfélaga fyrir hönd Sambands Íslenskra sveitarfélaga.
Hermann Jón er fæddur 13. apríl 1959. Hann lauk stúdentsprófi frá MA og nam síðan sálfræði við Háskóla Íslands og Texas Tech University og kennslufræði við HÍ. Hann hefur auk þess lagt stund á stjórnunarnám við kennaradeild Háskólans á Akureyri. Hermann hefur lengst af starfað við kennslu, námsráðgjöf og stjórnun í Verkmenntaskólanum á Akureyri. Eiginkona Hermanns er Bára Björnsdóttir leikskólakennari og eiga þau þrjú börn.

Nýjast