Heilsufarsstaða Íslendinga - Landskönnun á hreyfingu, kyrrsetu og svefni hafin

Nanna Nanna Ýr Arnardóttir, lektor við Háskólann á Akureyri
Nanna Nanna Ýr Arnardóttir, lektor við Háskólann á Akureyri

Ný rannsókn er hafin á Íslandi þar sem hreyfing, kyrrseta og svefn fólks í landinu á aldrinum 20–69 ára verða mæld með hlutlægum hætti. Rannsóknin, sem nefnist Landskönnun á hreyfingu, kyrrsetu og svefni, er hluti af stóru Evrópuverkefni, JA Prevent, sem hefur það markmið að efla forvarnir gegn ósmitbærum sjúkdómum.

Íslenski hluti verkefnisins er samstarf embættis landlæknis, Hagstofu Íslands, Háskóla Íslands, Háskólans í Reykjavík og Háskólans á Akureyri. Nanna Ýr Arnardóttir, lektor við Háskólann á Akureyri er fulltrúi háskólans í verkefninu.

Mikilvægi rannsóknarinnar

Ósmitbærir sjúkdómar, svo sem hjarta- og æðasjúkdómar, sykursýki og ýmis stoðkerfisvandamál, eru ein helsta orsök heilsutaps í Evrópu. Mælingar á hreyfingu, kyrrsetu og svefni geta veitt mikilvægar upplýsingar um áhættuþætti þessara sjúkdóma.

„Rannsóknin mun gefa okkur nákvæmara mat á heilsufarsstöðu Íslendinga og skapa traustan grunn til að meta ávinning af lýðheilsustefnum og forvarnarstarfi til framtíðar,“ segir Nanna Ýr, aðspurð um ávinning rannsóknar. „Svo fá þátttakendur gjafabréf sem hvatningu til að taka þátt því það er okkur mjög mikilvægt að góð þátttaka náist svo niðurstöður gefi góða raunmynd af aðstæðum,“ bætir Nanna við.

Framkvæmdin

Þau sem hafa tekið þátt í Evrópsku heilsufarsrannsókninni (EHIS), sem er í formi spurningalista sendum af Hagstofunni, fá boð um þátttöku í Landskönnununni. Þau sem samþykkja þátttöku fá sendan búnað til að safna gögnum: hreyfimæli sem er borinn á mitti yfir daginn og á úlnlið yfir nóttu, málband fyrir mittismál, svefndagbók, leiðbeiningar og umslag til að skila gögnunum aftur.

Með þessum hætti er hægt að mæla venjur daglegs lífs hjá fólki – hve mikið það hreyfir sig, hve lengi það situr kyrrt og hvernig svefnvenjur eru. Þetta er fyrsta heildstæða rannsókn sinnar tegundar hér á landi þar sem svona breitt aldursbil er skoðað samtímis með hlutlægum hætti.

Á heimasíðunni island.is/hks má nálgast frekari upplýsingar um rannsóknina og hvernig hún er unnið í samstarfi við alþjóðlega aðila.

Nýjast