Heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra semur við Akureyrarbæ

Þjónustusamningur um rekstur Heilsugæslustöðvarinnar á Akureyri og stofnanaþjónustu fyrir aldraða var undirritaður á Dvalarheimilinu Hlíð í morgun af Guðlaugi Þór Þórðarsyni heilbrigðisráðherra og Sigrúnu Björk Jakobsdóttur bæjarstjóra á Akureyri. Í samningunum er gengið út frá því og lögð á það megin áhersla að gefa öldruðum kost á því að dvelja eins lengi heima hjá sér og kostur er og fólkið sjálft kýs. Lögð er sérstök áhersla á að samþætta þjónustuna sem veitt er, laga hana að þörfum þeirra sem fá hana og gera hana sveigjanlega. Við sama tækifæri var einnig undirritaður samningur sömu aðila um heilsugæsluþjónustu við fangelsið á Akureyri.

Í samningunum um heilsugæslustöðina er byggt á reynslunni sem fékkst þegar Akureyri var reynslusveitarfélag og þjónustusamningi sem áður var í gildi, en hvort tveggja þykir hafa gefið góða raun séð með augum þeirra sem þjónustunnar njóta og þeirra sem veita hana. Akureyrarbær hefur haft rekstur heilsugæslunnar með höndum frá 1997 og stofnanaþjónustu fyrir aldraða mun lengur. Í samningnum endurspeglast áhersla á nærþjónustuna og með samþættingu þessarar þjónustu og sérþjónustu fatlaðra við aðra félagslega þjónustu Akureyrarbæjar fá íbúarnir áfram mjög góða og heildstæða félags- og heilbrigðisþjónustu þar sem ábyrgð sveitarfélagsins er ótvíræð. Samningsfjárhæð fyrir árið 2008 er rúmar 1.620 milljónir króna.

Ríkur þáttur í samningum um heilbrigðisþjónustu við fanga er m.a. fræðsla og forvarnir. Með samningnum og endurbótum á fangelsinu hefur verið komið upp aðstöðu innan veggja þess sem gerir heilbrigðisstarfsmönnum kleift að sinna þjónustunni á staðnum, sem ekki var hægt áður. Samningurinn er til sex ára og samningsfjárhæðin er tæpar tvær milljónir króna á ári.

Nýjast