Haukar númeri of stórir fyrir Akureyri í kvöld

Haukar höfðu betur gegn Akureyri Handboltafélagi, 24:20, er liðin mættust í Íþróttahöllinni í kvöld í N1- deild karla í handbolta. Sigurinn var þó mun öruggari en tölurnar gefa til kynna og strax í upphafi leiks gáfu gestirnir tóninn fyrir það sem koma skyldi og var í raun aldrei spurning hvoru megin sigurinn myndi detta. Gestirnir voru ógnarsterkir í öllun sínum aðgerðum, sóknarlega sem varnarlega og Birkir Ívar Guðmundsson átti stórleik í marki gestanna þar sem hann varði 24 skot, þar af 2 víti og voru Haukar einfaldlega númeri of stórir fyrir Akureyri í kvöld.

Gestirnir byrjuðu leikinn af krafti og skoruðu þrjú fyrstu mörkin og þegar fyrri hálfleikur var hálfnaður var staðan 10:3 fyrir Hauka. Gestirnir juku muninn í átta mörk áður en flautað var til leikhlés. Staðan í hálfleik, 15:7, Haukum í vil.

Haukar byrjuðu seinni hálfleikinn líkt og þann fyrri og skoruðu fyrstu tvö mörkin og munurinn tíu mörk, 7:17, og úrslitin nánast ráðin. Norðanmenn náðu þó að hrista upp í sínum leik þegar leið á seinni hálfleikinn og skoruðu þrjú síðustu mörkin í leiknum.Lokatölur fjögurra marka sigur gestanna, 24:20.

Oddur Gretarsson var markahæstur í liði Akureyrar með 7 mörk, þar af 3 úr víti. Jónatan Þór Magnússon skoraði 4 mörk og þeir Árni Þór Sigtryggsson, Geir Guðmundsson og Heimir Örn Árnason komu næstir með 2 mörk hver. Þá varði Hörður Flóki Ólafsson 9 skot í marki heimamanna og Hafþór Einarsson varði 10 skot.

Í liði Haukar var Elías Már Halldórsson markahæstur með 7 mörk, Björgvin Hólmgeirsson skoraði 6 mörk, Freyr Brynjarsson 3 mörk og aðrir minna. Sem fyrr segir átti Birkir Ívar Guðmundsson stórleik fyrir Hauka og varði 24 skot.

Eftir leikinn eru Haukar á toppi deildarinnar með 14 stig eftir átta leiki en Akureyri er í 3. sæti með 11 stig eftir níu leiki.

Leikurinn var síðasta leikur ársins hjá Akureyri í N1- deildinni en norðanmenn eiga ágætis möguleika á því að ná sæti í Deildarbikarkeppninni sem verður haldin milli jóla og nýárs.

Nýjast