Haukar deildarbikarmeistarar eftir dramatískan sigur gegn Akureyri

Haukar eru deildarbikarmeistarar í handbolta karla eftir dramatískan sigur á Akureyri, 25:24, er liðin mættust í úrslitum í Íþróttahúsinu við Strandgötu í kvöld. Allt stefndi í framlengingu þegar nokkrar sekúndur lifðu leiks en staðan var þá 24:24 og Haukar í sókn sem virtist vera að renna þeim úr greipum. Tjörvi Þorgeirsson reyndist hins vegar hetja Hauka er hann skoraði með mögnuðu skoti á lokasekúndu leiksins og tryggði Haukum sigurinn. Akureyri verður því að bíða enn um sinn eftir sínum fyrsta titli.

Akureyri byrjaði leikinn af miklum krafti og skoraði fyrstu fimm mörkin í leiknum en Haukar komust ekki á blað fyrr en á 11. mínútu leiksins. Haukar náðu að saxa á forskot norðanmanna hægt og þétt og staðan 11:13 í hálfleik, Akureyri í vil.

Seinni hálfleikurinn var jafn og spennandi frá upphafi til enda. Haukar náðu að jafna metin í 15:15 þegar tíu mínútur voru búnar af seinni hálfleik. Haukar komust svo yfir í fyrsta skiptið í leiknum, 20:19, þegar tíu mínútur lifðu leiks. Það var svo rafmögnuð spenna undir lokin en Árni Þór Sigtryggsson jafnaði metin fyrir norðanmenn í 24:24 þegar hálf mínúta var eftir af leiknum. Hafþór Einarsson virtist hafa tryggt Akureyri framlengingu þegar hann varði skot utan af velli frá Haukum þegar nokkar sekúndur voru eftir en Tjörvi Þorgeirsson sá til þess að norðanmenn sátu eftir með sárt ennið í leikslok með eins dramatísku sigurmarki og mest gerist.

Oddur Gretarsson var sem fyrr atkvæðamestur í liði Akureyrar með 11 mörk, þar af 1 úr víti, Árni Þór Sigtryggsson og Guðmundur Hólmar Helgason skoruðu þrjú mörk hver og aðrir minna. Hafþór Einarsson átti stórleik í marki Akureyrar og varði 21 skot.

Hjá Haukum var Guðmundur Árni Ólafsson markahæstur með 9 mörk og þeir Tjörvi Þorgeirsson og Elías Már Halldórsson komu næstir með 4 mörk hver.

Nýjast