Hátt í 500 nemendur í grunn- skólum Akureyrar veikir í vikunni

Grunnskólanemendur á Akureyri hafa ekki farið varhluta af flensunni en í öllum grunnskólum bæjarins eru töluverð veikindi. Verst er ástandið í Lundarskóla, þar sem 100 börn voru tilkynnt veik í gærmorgun og 130 í á miðvikudag. Í Glerárskóla voru 100 börn veik í gærmorgun en rúmlega 90 á miðvikudag.  

Í Síðuskóla voru um 70 börn heima í gærmorgun og svipaður fjöldi á miðvikudag. Í Brekkuskóla voru 50 börn veik í gæmorgun en á miðvikudag voru þau 70. Í Naustaskóla voru 10 börn veik í gærmorgun en 14 á miðvikudag. Um 20 börn vantaði í Oddeyrarskóla og svipaðan fjölda á miðvikudag.

Í Hrísey eru grunnskólinn og leikskólinn í sama húsnæði og eru 18 nemendur í hvorum skóla. Í gærmorgun voru fjórir grunnskólanemendur veikir heima en átta leikskólabörn. Í Grímsey lá öll kennsla niðri í gærmorgun, þar sem báðir kennarnir voru veikir og á miðvikudag komu þrír af ellefu nemendum í skólann og annar kennarinn.

Nýjast