Sjómenn á Akureyri efna til hátíðarinnar Einn á báti á útivistarsvæðinu að Hömrum á laugardag og stendur hún frá kl. 14 til 17. Bryggjustemmning verður í Sandgerðisbót á laugardagsmorgun og hefðbundin sjómannadagskrá við Menningarhúsið Hof á sjómannadag. Við bjóðum upp á veglega dagská í ár og eigum von á miklum fjölda gesta, segir Árni Rúnar Jóhannesson einn skipuleggjenda hátíðarinnar, enda veðurspá góð og fjölbreytt vegleg dagskrá í boði. Skoppa og Skrítla mæta á svæðið og skemmta börnunum, atriði verður úr Gulleyjunni, Einar einstaki töframaður sýnir listir sínar og Heimir Ingimarsson syngur. Þyrla Landhelgisgæslunnar verður til sýnis og Súlur sýna tæki sín og tól. Líkt og í fyrra mun karamellum rigna yfir hátíðarsvæðið.
Þá keppa sjómenn í ýmsum greinum, fótbolta, koddaslag, reiptogi og bumbubolta svo eitthvað sér nefnt. Sjóstangveiðifélag Eyjafjarðar stendur fyrir keppni meðal sjómanna í flugkasti. Sjómenn eiga heiðurinn af hátíðinni, en eftir nokkra lægð í sjómannadagshátíðarhöldum á Akureyri tóku þeir sig til og hófu sjálfir að skipuleggja dagskrá. Árni Rúnar segir að einstök veðurblíða, gott skjól og fallegt umhverfi hafi einkum og sér í lagi orðið til þess að sjómenn velji að halda hátíð sína að Hömrum.
Á Sjómannadaginn verða sjómannamessur bæði í Akureyrarkirkju og Glerárkirkju, en í þeirri síðarnefndu verður blómsveigur lagður að minnisvarða um týnda og drukknaða sjómenn að lokinni messu. Hefðbundin dagskrá verður við Hof, m.a. hinn sívinsæli kappróður, ræðu dagsins flytur Ragnhildur Benediktsdóttir frá Jötunfelli og fjallar um trillukarla, m.a. afa sinn og föður. Smábátar munu sigla úr Sandgerðisbót í hópsiglingu að Torfunefsbryggju. Tónlistaratriði verða á dagskrá, m.a. munu félagar úr Karlakór Akureyrar Geysi syngja sjómannalög og Nökkvafélagar sýna báta sína. Boðið verður upp á siglingu með Húna II og Arngrímur Jóhannsson lendir sjóflugvél sinni á Pollinum svo eitthvað sér nefnt.