Vinir Akureyrar og Akureyrarstofa hafa undirritað samning um framkvæmd og skipulagningu hátíðarinnar Ein með öllu sem haldin er á Akureyri um verslunarmannahelgi og er samningurinn til þriggja ára. Í samningnum eru markmið hátíðarinnar undirstrikuð en þau eru að bjóða bæjarbúum og gestum upp á fjölskylduhátíð sem stendur undir nafni sem slík. Jafnframt er markmiðið að gera Akureyri að eftirsóknarverðum áfangastað um verslunarmannahelgi með því að bjóða upp á dagskrá sem hefur sérstöðu miðað við aðrar hátíðir sem haldnar eru annars staðar á landinu þessa helgi. Davíð Rúnar Gunnarsson frá Vinum Akureyrar, Þórgnýr Dýrfjörð framkvæmdastjóri Akureyrarstofu og Arinbjörn Þórarinsson frá Vinum Akureyrar, undirrituðu samninginn.
Skipuleggjendur hátíðarinnar munu leggja sig fram um að ná sem víðtækastri samstöðu um aðgerahátíðina að hefð sem hefur breiða þátttöku og mun þróast þannig að bæjarbúar og ferðalangar vilji njóta dagskrárinnar ár eftir ár. Fastir viðburðir eiga sinn sess á hátíðinni, s.s. kirkjutröppuhlaup við Akureyrarkirkju, Dynheimaball og Sparitónleikar. Í samningnum kemur einnig fram hvert framlag bæjarins er til hátíðarinnar bæði hvað varðar vinnuframlag og fjármagn en Akureyrarstofa greiðir Vinum Akureyrar 1.200.000 kr. árlega fyrir framkvæmdastjórn hennar.
Þórgnýr Dýrfjörð framkvæmdastjóri Akureyrarstofu segir það vera gleðiefni að búið sé að skrifa undir þennan samning og festa þar með í sessi hátíðina Ein með öllu sem sé nú komin af þroskastiginu og orðin fullorðin og ábyrg hátíð sem ríghaldi í að telja bros gesta. Að sögn Davíðs Rúnars Gunnarssonar hjá Vinum Akureyrar er mjög mikilvægt að hátíðin sé komin með þriggja ára samning þar sem komi skýrt fram hvert framlag bæjarins er. Með þessu sé búið að tryggja ákveðið fjármagn og línur skýrar og síðast en ekki síst felst í samningnum undirstrikun á því fyrir hvað hátíðin stendur og hvernig hún muni þróast næstu árin. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu.