Akureyringar líkt og landsmenn allir fagna því í dag að 100 ár eru síðan íslenskar konur fengu kosningarétt. jöldi kvenfélaga og kvennasamtaka í samvinnu við Akureyrarbæ hefur skipulagt dagskrá sem hefst í Lystigarðinum og endar með dagskrá á sviði á Ráðhústorgi. Klukkan 13-14 safnast fólk saman í Lystigarðinum á Akureyri. Þar verður boðið upp á tónlist, lesið upp úr bókinni Saga Lystigarðsins, leiðsögn um ljósmyndasýningu ÁLF-kvenna sem er áhugaljósmyndarafélag kvenna og Kvennakór Akureyrar syngur.
Klukkan 14:00 leggjur syngjandi skrúðganga af stað þar sem Kvennakór Akureyrar leiðir fjöldasöng, félagar úr Dansfélaginu Vefarinn mæta prúðbúin, dansarar frá Steps Dancecenter mæta sem kjarnakonan Mary Poppins og kvenlögregluþjónar leiða gönguna ásamt þjóðbúningaklæddum konum og körlum. Þátttakendur eru hvattir til að vera prúðbúnir. Marimbasveitin Kijana Marimba úr Þingeyjarskóla spilar í göngugötunni.
Klukkan 14.30 hefst dagskrá á Ráðhústorgi og munu Lára Sóley Jóhannsdóttir og Hjalti Jónsson sjá um að kynna dagskrárliði auk þess að taka lagið. Hugleiðingar og hvatningaorð flytja Sigrún Stefánsdóttir forseti hug- og félagsvísindasviðs Háskólans á Akureyri, Arnaldur Starri Stefánsson nýstúdent frá Menntaskólanum á Akureyri og Silja Björk Björnsdóttir baráttukona. Þær Sigrún Marý McCormick, Kamilla Dóra Jónsdóttir, Aldís Bergsveinsdóttir og Eva Laufey Eggertsdóttir flytja lag við undirleik Tryggva Unnsteinssonar, Kvennakór Akureyrar tekur höndum saman við dansstúlkur frá Point, dansdívur frá Steps Dancecenter flytja Mary Poppins atriði og Hljómsveitin Eva endar dagskrána eins og þeim er einum lagið.
Margir aðrir viðburðir munu eiga sér stað bæði 19. og 20. júní af þessu tilefni. Opnanir sýninga á miðbæjarsvæðinu, tónleikar tileinkaðir konum, upplestur nýútkominnar bókar þar sem rætt er við konur sem hafa gegn ráðherrastóli, dagskrá í Samkomuhúsinu þar sem Vilhelmínu Lever verður minnst og fleira.
Nánari upplýsingar um dagskrána er að finna á slóðinni http://www.akureyri.is