08. október, 2007 - 14:35
Heilbrigðisdeild Háskólans á Akureyri kannar um þessar mundir möguleikana á að hefja fjarnám í iðjuþjálfunarfræðum haustið 2008. Þessi hugmynd er í samræmi við þá stefnu háskólans að auðvelda aðgengi allra landsmanna að háskólanámi um leið og komið er til móts við sívaxandi eftirspurn eftir iðjuþjálfum.
HA er eina menntastofnunin í landinu sem býður upp á nám í iðjuþjálfunarfræðum. Iðjuþjálfar brautskráðir frá HA hafa reynst eftirsóttir starfskraftar og síðan iðjuþjálfunarbrautin tók til starfa haustið 1997 hefur eftirspurn eftir iðjuþjálfum aukist verulega um allt land. Reynslan hefur sýnt að HA tekst ekki að mæta þörf samfélagsins fyrir þjónustu iðjuþjálfa með staðarnámi eingöngu. Reiknað er með að fjarnámið fari fram samhliða staðarnáminu og að fjarnemendur mæti í stuttar kennslulotur í HA með staðarnemum einu sinni til tvisvar á önn. Þess á milli stunda fjarnemendur nám sitt alfarið í gegnum netið. Staðarnámið verður áfram með hefðbundnum hætti.