Háskólarnir heimsækja í fyrsta sinn bæði VMA og MA
Háskóladagurinn verður á Akureyri fimmtudaginn 17. mars í VMA og MA
Allir háskólar landsins kynna námsleiðir sínar, sem eru yfir 500 talsins, og námsráðgjafar verða á staðnum
„Háskóladagurinn kynnir nú í fyrsta sinn bæði í VMA og MA," segir Hallfríður Þóra Tryggvadóttir, verkefnastjóri Háskóladagsins um kynningu á háskólanámi á Akureyri fimmtudaginn 17. mars.
Kynningar fara fram í Verkmenntaskólanum á Akureyri kl. 9:30 til 11 og í Menntaskólanum á Akureyri frá kl. 13 til 14:30. Það er nýlunda að Háskóladagurinn komi bæði í VMA og MA en áður hafa kynningar farið fram í VMA.
Allir háskólar á Íslandi standa í sameiningu fyrir Háskóladeginum sem fór fram í Reykjavík laugardaginn 5. mars. Eftir þann dag héldu háskólarnir í ferð um landið til að kynna þær námsleiðir sem eru í boði.
„Háskólarnir koma á Akureyri, og ferðast um landið, til að sem flestir hafi aðgang að góðum námskynningum. Það getur nefnilega verið hægara sagt en gert að velja framtíðarnám og starfsvettvang," segir Hallfríður.
„Þessar kynningar eru einstakt tækifæri fyrir þá sem ætla að hefja háskólanám næsta haust eða vilja skoða hvaða möguleikar eru í boði," segir Hallfríður og bætir við að möguleikarnir séu ótalmargir. „Ég held að margir verði hissa yfir fjölbreytileikanum sem ríkir innan veggja háskólanna. Það er eitthvað í boði fyrir alla," segir hún og bendir á að skólarnir séu alltaf að bæta við eða endurbæta námsframboðið. „Þú gætir því auðveldlega uppgötvað eitthvað nýtt nám, sem þú vissir ekki um, í VMA og MA á fimmtudaginn," segir Hallfríður.
Háskóli Íslands, Háskólinn á Akureyri, Háskólinn á Bifröst, Háskólinn á Hólum, Háskólinn í Reykjavík, Landbúnaðarháskóli Íslands og Listaháskóli Íslands kynna námsframboð sitt, á grunn- og framhaldsstigi.
Háskóladagurinn veitir framtíðarnemendum tækifæri til þess að hitta námsráðgjafa, kennara, starfsmenn og nemendur háskólanna svo þeir geti tekið upplýsta ákvörðun um námsval. „Það eru allir velkomnir og við hvetjum fólk á öllum aldri til þess að mæta, hvort sem þeir eru framhaldsskólanemar, nýstúdentar eða fólk úr atvinnulífinu," segir Hallfríður.
Háskóladagurinn á Akureyri á Facebook:
https://www.facebook.com/events/1752995194987188/
Kynningar Háskóladagsins um allt land: