Akureyrarbær hefur sent frá sér yfirlýsingu þar sem bærinn harmar einhliða umræðu og rætnar ásakanir í fjölmiðlum um niðurstöðu héraðsdóms Norðurlands eystra í dómsmálum tveggja fyrrum slökkviliðsmanna. Akureyrarbæ hefur verið gert að greiða fimm milljónir í sakarkostnað fyrir ólöglegar uppsagnir, auk rúmlega tveggja milljóna í málskostnað.
"Þegar dómar hafa ekki verið birtir opinberlega og umræðan er af hálfu annars aðilans er ljóst að aðeins önnur hliðin á þessu erfiða starfsmannamáli kemur fram. Eru fjölmiðlar hvattir til að rýna vel í dóminn þegar hann birtist.
Bærinn bendir á að í meginatriðum er bærinn sýknaður af kröfum aðila, sem hljóðuðu upp á 19,6 og 36,9 milljónir. Bæjarráð er með til skoðunar hvort áfrýja eigi málunum til Hæstaréttar, en forsendur héraðsdóms eru umdeilanlegar að mati lögmanns Akureyrarbæjar," segir í yfirlýsingu frá Akureyrarbæ.