Halla Björk tekur við formennsku í bæjarráði

Á fundi bæjarstjórnar Akureyrar í gær var Halla Björk Reynisdóttir L-lista, kjörin formaður bæjarráðs til eins árs og Oddur Helgi Halldórsson, L-lista, sem verið hefur formaður bæjarráðs, var kjörinn varaformaður. Geir Kristinn Aðalsteinsson L-lista, Andrea Sigrún Hjálmsdóttir, V-lista og Guðmundur Baldvin Guðmundsson B-lista voru kosnir aðalmenn í bæjarráð. Þá voru þeir Hermann Jón Tómasson S-lista, Ólafur Jónsson D-lista og Sigurður Guðmundsson A-lista, kjörnir í bæjarráð sem áheyrnarfulltrúar.

Á fundi bæjarstjórnar var Geir Kristinn Aðalsteinsson endurkjörinn forseti bæjarstjórnar til eins árs. Oddur Helgi Halldórsson var kjörinn 1. varaforseti bæjarstjórnar og Andrea Sigrún Hjálmsdóttir 2. varaforseti. Þá voru Hlín Bolladóttir L-lista og Guðmundur Baldvin Guðmundsson kjörnir skrifarar bæjarstjórnar.

Þá var eftirfarandi tillaga um sumarleyfi bæjarstjórnar Akureyrar, samþykkt með 11 samhljóða atkvæðum: “Í samræmi við 7. og 47. grein samþykktar um stjórn Akureyrar og fundarsköp bæjarstjórnar samþykkir bæjarstjórn að frá 20. júní til 20. ágúst 2012 verði sumarleyfi bæjarstjórnar. Ekki verða haldnir fundir í bæjarstjórn á framangreindu tímabili nema þörf krefji eða þriðjungur bæjarfulltrúa krefjist þess. Jafnframt er bæjarráði á þessum tíma heimiluð fullnaðarafgreiðsla þeirra mála sem það telur nauðsynlegt að fái afgreiðslu og lög mæla ekki gegn.”

 

Nýjast