Hagnaður af Landsmóti UMFÍ um 18 milljónir króna

„Þetta kom út réttu megin við núllið. Við erum að halda að þetta séu um 18 milljónir króna í hagnað," segir Sigurður H. Kristjánsson, formaður UMSE, en uppgjörsfundur vegna Landsmóts UMFÍ var haldinn í síðustu viku. Sigurður segir útkomuna vera eina bestu í sögu Landsmótsins og uppgjörið sé framar vonum.  

„Þetta gekk mun betur en áætlað var og er þar fyrst og fremst að þakka mikilli sjálfboðavinnu. Ég held að um 1500 sjálfboðaliðar hafi hjálpað til á mótinu og það er stór partur af þessum hagnaði."  Fjármununum verður skipt á milli félaganna tveggja sem héldu Landsmótið, UMSE og UFA, auk þess sem sérstakir sjóðir verða stofnaðir til þess að halda utan um hagnaðinn. „Megnið af fjármununum verður væntanlega notað í almenna útbreiðslu fyrir félögin," segir Sigurður. 

Nýjast