Endurbygging Ísbryggju og Togarabryggju við frystihús ÚA eru stærstu verkefnin sem unnið hefur verið að á vegum Hafnasamlags Norðurlands frá upphafi. Hörður Blöndal framkvæmdastjóri HN segir að undirbúningur verksins hafi staðið í mörg ár, en bryggjurnar voru byggðar á árunum 1956 til 1958. Ísbryggjan er trébryggja en verður endurbyggð sem staurabryggja með steyptri þekju. Togarabryggjan verður áfram stálþilsbryggja. Tilboð í verkefnin voru opnuð í lok apríl og í kjölfarið samið við lægstbjóðanda, Íslenska Gámafélagið ehf, en upphæð tilboðsins hljóðar upp á ríflega 143,4 milljónir króna. Áætlað er að verkinu verði lokið 1. ágúst á næsta ári.
Einnig er unnið að því á vegum HN að setja upp grjótvörn í Grímsey, en um er að ræða verkefni sem er á samgönguáætlun. Árni Helgason í Ólafsfirði er með það verk á sinni könnu og er kostnaður um 16,5 milljónir króna. Eftir að strandveiðikerfið var tekið upp hefur smábátum fjölgað mjög og samþykkti stjórnin á síðasta ári að verja fé til kaupa á flotbryggjum eða öðrum búnaði sem bætir aðstöðu fyrir minni báta. Smíðaðar voru léttar flotbryggjur úr timbri og þeim komið fyrir í Grímsey, Hrísey og á Hjalteyri.