Með hækkandi sól aukast ferðalög á fjöllum og því vill Landsnet vekja athygli útvistarfólks á því að víða á landinu er hættulega stutt upp í háspennulínur vegna mikillar snjókomu í vetur. Þar sem ástandið er verst hefur verið gripið til þess ráðs að moka, eða ryðja frá línum og setja upp merkingar.
Sérstaklega eru aðstæður varasamar á Norðurlandi eystra, á Austurlandi og Vestfjörðum. Á þessum slóðum er enn víða mjög stutt upp í línuleiðara og því eru allir sem ætla að fara á fjöll, bæði vélsleða-, skíða- og göngufólk, hvatt til þess að fara með mikilli gát nærri háspennulínum og möstrum. Sum staðar er hæðin upp í leiðara bara 1-2 metrar og á öðrum stöðum hefur línur fennt í kaf. Búið er að moka, eða ryðja frá línum og setja upp merkingar þar sem ástandið er verst en eftir sem áður er mikilvægt að allir sem eru á ferð til fjalla sýni aðgát.
Hægt er að leita frekari upplýsinga um aðstæður á einstökum línuleiðum hjá stjórnstöð Landsnets í síma 563 9401 eða með því að senda tölvupóst á netfangið stjornstod@landsnet.is