Þessi fyrirætlan hefur verið mjög í umræðunni hér og fólk óttast hið versta, því við erum háð góðum samgöngum hér úti við ysta haf, hvort sem er í lofti eða láði, segir Gunnólfur Lárusson sveitarstjóri í Langanesbyggð, en rekstrarstyrkur vegna áætlunarflugs sem Norlandair á Akureyri hefur sinnt til Þórshafnar og Vopnafjarðar verður ekki greiddur lengur en til áramóta 2013 til 2014. Þorsteinn Steinsson sveitarstjóri í Vopnafjarðarhreppi tekur í sama streng og segir mjög erfitt fyrir sveitarfélögin að horfa til þess að styrkurinn verði afnuminn, þar sem hér er um eina almenningssamgöngumátann til og frá þessu stöðum að ræða, segir hann. Í ályktun sem samþykkt var á fundi sveitarstjórnar segir að það sé fullkomnlega óásættanlegt að rekstrarstyrkurinn sé ekki tryggður til lengri tíma. Þessi mikilvægi samgöngumáti má ekki undir neinum kringumstæðum falla niður. Enda eitt af marginmarkmiðum samgönguáætlunar að almenningssamgöngur séu góðar innan svæða og einnig og ekki síður til og frá höfuðborg allra landsmanna, segir í ályktun frá Vopnafjarðarhreppi.
Gunnólfur í Langanesbyggð bendir á að Hófaskarðsleiðin sé vissulega mikil samgöngubót og íbúar þakklátir fyrir hana. Það þarf hinsvegar ekkert að fjölyrða um það við þá sem þekkja sláttinn í byggðarlögum á borð við Þórshöfn og Vopnafjörð, hvað þetta flug skiptir gríðarlega miklu máli, segir hann. Sjávarútvegsfyrirtæki á svæðinu hafi fjárfesti fyrir milljarða undanfarin ár og þau nýti sér flugið í miklum mæli. Þá skiptir það einnig máli fyrir íbúa að hafa greiðan aðgang að suðvesturhorni landsins sem það hafi í gegnum flugið. Hann segir íbúa háða margs konar þjónustu á höfuðborgarsvæðinu, heilbrigðisþjónustu og stjórnsýslu svo dæmi séu tekin. Og oftar en ekki þurftum við að sækja þessa þjónustu fljótt og örugglega. Þarna hefur flugið skipt öllu máli og fólkið hér má ekki til þess hugsa ef það verður lagt af, segir Gunnólfur.
Í báðum sveitarfélögum bera menn þá von í brjósi að yfirvöld samgöngumála tryggi fjárveitingar til þessara samgangna áfram.