Hærra hlutfall atvinnulausra á Akureyri í hlutastarfi

Mun hærra hlutfall þeirra sem skráðir eru atvinnulausir á Akureyri hafa hlutastarf á móti atvinnuleysisbótum, en á landsvísu. Hlutfallið er um 32%, en alls eru tæplega 1200 manns skráðir atvinnulausir á Akureyri nú, þar af eru um 700 alveg án atvinnu, en aðrir hafa einhverja atvinnu á móti bótum.  

Soffía Gísladóttir framkvæmdastjóri Vinnumálastofnunar á Norðurlandi eystra segir að hlutfallið á landsvísu sé 17,5%, eða mun lægra en á Akureyri.  "Mér þykir líklegt að helstu skýringanna sé að leita í nærsamfélaginu hér, fyrirtæki leita allra leiða til að halda starfsfólki sínu í einhverri vinnu frekar en að grípa til uppsagna," segir Soffía. Á Norðurlandi eystra öllu eru nú um 1560 skráðir atvinnulausir, þar af sem fyrr segir tæplega 1200 á Akureyri. Þorsteinn Arnórsson hjá Einingu-Iðju segir útlitið framundan ekki bjart, en menn bíði eftir því hvað ríkisstjórnin geri, hvort hún setji fjármagn í atvinnuskapandi verkefni sem myndi bjarga miklu. Hann segir að flest verkefni sem nú er í gangi t.d. í byggingariðnaði á Akureyri klárist í vor, sumar eða haust og lítið sé framundan eins og staðan sé nú.

Nýjast