Hængsmótið haldið í 30. sinn á Akureyri

Keppt verður í boccía og borðtennis í Íþróttahöllinni á Akureyri næstu daga.
Keppt verður í boccía og borðtennis í Íþróttahöllinni á Akureyri næstu daga.

Undanfarna áratugi hefur Lionsklúbburinn Hængur á Akureyri staðið fyrir opnu móti fyrir fatlað íþróttafólk. Mótið nefnist Hængsmót og fer 30. mótið fram dagana 28.-30. apríl nk. í Íþróttahöllinni á Akureyri. Mótið verður sett í Höllinni á morgun, laugardaginn 28. apríl kl. 16.00 af bæjarstjóranum á Akureyri, Eiríki B. Björgvinssyni. Heiðursgestur Hængsmótsins 2012 er forseti Íslands, herra Ólafur Ragnar Grímsson. Keppni hefst kl. 17.00 á morgun en þá verður keppt í borðtennis og einstaklingskeppni þroskaheftra í boccia. Á sunnudag hefst keppni kl. 09.00 með einstakslings- og sveitakeppni í boccía og á mánudag verður einnig keppt í einstaklings- og sveitakeppni í boccia. Áætlað er keppni ljúki kl. 15.20 á mánudag. Hængsmótinu lýkur með veglegu lokahófi í Íþróttahöllinni kl. 19.00 á mánudagskvöld og verður þar m.a. boðið upp á góðan mat, margvísleg skemmtiatriði ásamt verlaunaafhendingu, happadrætti og dansleik á eftir. Verður þar margt góðra gesta og mikil gleði að venju. Hængsmótið er stærsta og jafnframt skemmtilegasta verkefni Lionsklúbbsins Hængs. “Við tökumst á við þetta stærsta verkefni okkar á hverju ári af mikilli ánægju, því að við vitum að laun okkar fyrir mikinn undirbúning og mikla vinnu eru ríkuleg og ekki í líkingu við nokkuð annað.  Geislandi bros og innilegt þakklæti sem kemur beint frá hjartanu eru stórkostleg laun,” segja þeir Hængsfélagar. Þröstur Guðjónsson formaður ÍBA er mótsstjóri og yfirdómari sem fyrr, formaður mótsnefndar er Gunnlaugur Björnsson og mótsstjóri Jón Heiðar Árnason.

Nýjast