Hækkun hjá Norðurorku

Norðurorka
Norðurorka

Verðskrár vatnsveitu, hitaveitu og fráveitu hjá Norðurorku hækkuðu um 4,1% um áramótin.  Á heimasíðu Norðurorku segir að í tengslum við gerð fjárhagsáætlunar síðastliðið haust hafi verið gerð ítarleg skoðun á þeim hækkunum sem orðið hafa á rekstrarkostnaði félagsins undangengin ár auk þess sem horft var til verðbólguspár Seðlabankans. Þá var einnig litið til þróunar á verðskrá félagsins síðastliðin ár og þá í samhengi við áætlaða fjárfestingarþörf komandi ára. Verðskrá Rafveitu hækkar hins vegar ekki að þessu sinni og hefur hún verið óbreytt frá árinu 2012.

„Í  umræðum um verðskrárbreytingar Norðurorku er mikilvægt að leggja áherslu á að verðbreytingar hafa verið mjög hóflegar undangengin ár og Norðurorka markvisst lagt lóð á vogarskálar stöðugs verðlags. Á móti kemur að verulegar fjárfestingar liggja fyrir hjá félaginu, bæði nýframkvæmdir og endurnýjun á veitukerfum og því mikilvægt að tekjur félagsins rýrni ekki heldur séu í samhengi við reksturinn og fjárfestingar á hverjum tíma,“ segir á heimasíðu Norðurorku. 

Nýjast