Stólalyftan Fjarkinn í Hlíðarfjalli ofan Akureyrar var ræst í síðustu viku og verður látin ganga til 30. ágúst í sumar. Hægt er að taka hjólið með sér í lyftuna og gangandi geta tekið lyftuna bæði upp og niður og þá fyrir sama verð.
Fjórar hjólabrautir eru í fjallinu í umsjá Hjólreiðafélags Akureyrar; Suðurgil, Andrés, Hjalteyrin og Ævintýraleið. Einnig eru tvær leiðir frá gönguhúsi og ein frá lyftuskúr við Fjarkann en þessar þrjár liggja allar yfir í Glerárdal. Fyrir þá sem eru gangandi er tilvalið að stoppa við Strýtuskála og njóta útsýnis yfir Akureyrabæ og Eyjafjörð.
Frá Strýtuskála er svo merkt gönguleið upp á brún Hlíðarfjalls. Þegar þangað er komið er til dæmis hægt að ganga að Harðarvörðu, Blátindi, Bungu, Strýtu, Kistu eða á Vindheimajökul. Á góðviðrisdögum má á þessum slóðum sjá yfir í Mývatnssveit, Herðubreið eða vestur í Skagafjörð svo eitthvað sé nefnt.
"Því miður er ekki tekið við Ferðaávísun ríkistjórnarinnar þar sem starfsemin hér fellur ekki í þann flokk," segir á vef Akureyrarbæjar.