Hæg en örugg fólksfjölgun á Akureyri

Síðustu fimm árin hefur Akureyringum að meðaltali fjölgað um 170 á ári.
Síðustu fimm árin hefur Akureyringum að meðaltali fjölgað um 170 á ári.

Samkvæmt tölum úr Þjóðskrá Íslands var fjölgun í öllum landshlutum frá 1. desember 2017 til 1. október sl. nema á Norðurlandi eystra. Íbúum fækkaði um 0,4% á Norðurlandi eystra sem er fækkun um 115. Á landsvísu fjölgaði íbúum um 2%.

Hlutfallslega fjölgaði íbúum mest á Suðurnesjum eða um 4,7% og á Suðurlandi um 2,8%. Hlutfallsleg aukning í höfuðborginni var um 1,4%. Ef íbúafjölgun á Akureyri er skoðuð sérstaklega á milli áranna 2017 og 2018 þá fjölgaði bæjarbúum 92, eða 0,5% sem er töluvert undir landsmeðaltalinu.

Þóroddur Bjarnason, prófessor við Háskólann á Akureyri, segir íbúavöxtinn á Akureyri hafa verið nokkuð línulegan í gegnum áratugina. „Það er eðlilegt að vöxturinn sveiflist til og frá á milli ára. En það sem er hvað áhugverðast í þessu er hversu vöxturinn á Akureyri hefur verið stöðugur í heila öld með öllum þeim breytingum sem hafa orðið á samfélaginu – vexti og hruni iðnaðarins, stofnun háskólans og fjölgun ferðamanna svo fátt eitt sé nefnt,“ segir Þóroddur.

Síðastliðin hundrað ár hefur að meðaltali fjölgað um 161 íbúa á ári, en síðastliðin fimmtíu ár efur að meðaltali fjölgað um 168 á ári. Síðustu fimm árin hefur Akureyringum að meðaltali fjölgað um 170 á ári. Flest árin er fjölgunin á bilinu 100-­300 íbúar á ári. 

Þóroddur Bjarnason

Varhugavert að vaxa of hratt

Þóroddur bendir á að of ör íbúaþróun geti verið varhugaverð. „Ég held að það sé engin ástæða til að súpa hveljur þótt að íbúum fjölgi hlutfallslega lítið á Akureyri á milli ára. Ef bæjarfélög vaxa hratt má líkja því við unglinga sem vaxa of hratt; hlutföllin verða oft svolítið skrýtin og það verður mikið umrót. Það sem hægur og rólegur vöxtur leiðir af sér er að nýjum hverfum fjölgar jafnt og þétt, skólar byggðir í takt við það og svo framvegis. Við höfum fundið fyrir pressunni hér í bænum varðandi leikskólana þar sem börn hafa ekki fengið leikskólapláss og Heilsugæsluna þar sem erfitt er að fá tíma hjá lækni.

Það er eðlilegt í bæjarfélagi sem er að vaxa að það sé alltaf ákveðinn þrýstingur á kerfið, en verði vöxturinn of hraður geta vandamálin orðið alvarleg. Það má að sumu leyti þakka það hægri en öruggri fólkfjölgun hversu falleg og skemmtileg Akureyri er í samanburði við suma stærri staði sem hafa vaxið mun hraðar. Það er eðlilegt að fólk vilji sjá hlutina gerast hraðar en miðað við skriðþunga síðustu áratuga getum við búist við að Akureyri fari yfir 20 þúsund íbúa markið eftir u.þ.b. áratug“ segir Þóroddur Bjarnason.

Nýjast