Guðmundur Ólafsson, rithöfundur ættaður úr Ólafsfirði, hlaut í gær fyrstu verðlaun í smásagnasamkeppni Menor - Menningarsamtaka Norðlendinga og Tímarits Máls og menningar. Saga Guðmundar heitir Yfirbót og voru verðlaunin afhent við hátíðlega athöfn í Safnaðarheimili Glerárkirkju.
Í öðru sæti í keppninni var Arndís Þórarinsdóttir úr Reykjavík, en hennar saga hét "Hnupl". Í þriðja sæti var svo Reynir Hjartarson frá Akureyri, en hans saga heitir "Hefnd- eða fyrirgefning?"
Dómnefnd verðlaunanna skipaði Þórleifur Hauksson fyrir hönd Máls og menningar, Björn Teitsson, og Hólmfríður Andersen sem gerði grein fyrir niðurstöðu nefndarinnar.
Verðlaunaafhendingin var með nokkuð sérstöku sniði þar sem hún var spyrt saman við dagskrá til heiðurs Kristjáni frá Djúpalæk. Í þeirri dagskrá voru fluttir fyrirlestrar um skáldið, lesið úr ljóðum hans og ljóð hans sungin. Það var síðan í lok dagskrárinnar um Kristján sem verðlaunin í samkeppninni voru kynnt.
Fram kom í máli Kristjáns Kristjánssonar prófessors, sonar Kristjáns frá Djúpalæk, að í haust mun koma út heildarútgáfa af ljóðum skáldsins í einu stóru bindi. Þar verða þá samankomnar 13 ljóðabækur í einni. Fjölmenni var á þessari hátíðardagskrá.
Þá hafa orðið formannaskipti hjá Menor. Roar Kvam lét af formennsku eftir farsælt starf og við er tekinn Arnór Benonýsson.